
Snæfellsnes er fyrsti UNESCO vistvangurinn á Íslandi
Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) staðfesti í dag,
laugardaginn 27. september 2025, umsókn Íslands um að gera Snæfellsnes að
vistvangi. Er þetta fyrsta svæðið á Íslandi sem hlýtur þessa alþjóðlegu viðurkenningu.
Hugtakið vistvangur er íslenskt nýyrði yfir hugtakið Biosphere Reserve, en þau svæði
eru viðurkennd af MAB-áætlun UNESCO (Man and the Biosphere Programme).
Vistvangur nýtir náttúru- og félagsvísindi sem grunn til að auka lífsgæði íbúa og
stuðla að sjálfbærri þróun, með farsælu samspili umhverfis, mannlífs og menningar.
Snæfellsnes hefur lengi verið þekkt fyrir öflugt samstarf, ríka umhverfisvitund og
sterka tengingu íbúa við náttúruna. Snæfellsnes hefur m.a. áunnið sér alþjóðlega
umhverfisvottun EarthCheck í yfir 20 ár. Sveitarfélögin hafa markað skýra stefnu um
sameiginlegar auðlindir sínar og sóknarfæri í Svæðisskipulagi Snæfellsness 2014-
2026. Svæðisgarðurinn Snæfellsnes hefur frá stofnun, árið 2014, byggt upp farsælt
samstarf sveitarfélaga, félagasamtaka, stofnana, atvinnulífs og íbúa. Í starfsemi og
verkefnum Svæðisgarðsins er lögð áhersla á að grunnur verðmætasköpunar og
ímyndar byggi á náttúru- og menningararfi svæðisins. Áhersla Svæðisgarðsins á
samstarf ólíkra hópa samfélagsins rímar vel við grunnviðmið UNESCO
vistvanganna.
Á Snæfellsnesi er einnig að finna Snæfellsjökulsþjóðgarð, sem stofnaður var 2001 að
áeggjan heimamanna. Landsvæði þjóðgarðsins verður kjarnasvæði í vistvanginum á
Snæfellsnesi og eru þjóðgarðurinn og Svæðisgarðurinn Snæfellsnes því
samstarfsaðilar í verkefninu.
Umsóknarferlið
Að frumkvæði sveitarfélaganna á Snæfellsnesi var hafin skoðun á því árið 2020,
hvað fælist í aðild að UNESCO vistvangi. Niðurstaða þeirrar vinnu var að
Snæfellsnes félli vel að þeim viðmiðum sem UNESCO vistvangar setja. Með því að
gerast vistvangur fengi Snæfellsnes aðgang að dýrmætri þekkingu og reynslu
annarra slíkra svæða á því hvernig hægt er að flétta sjálfbæra þróun, þekkingu á
átthögum, umhverfi og menningu við markvissa uppbyggingu atvinnulífs. Auk þess
fælist í því aðild að „vörumerki” UNESCO, sem er eitt það þekktasta í heiminum. Í
framhaldinu var unnið að gerð umsóknar á vegum stýrihóps sem skipaður var af
umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, undir stjórn fulltrúa Snæfellinga, og var henni
skilað í september 2024.
Ísland nú hluti af alþjóðlegu neti vistvanga
Alþjóðlegt net vistvanga í heiminum nær til 759 svæða í 136 löndum, þar af 25 sem
liggja á milli landa. Þessi svæði ná yfir meira en 5% af yfirborði jarðar og þar búa um
300 milljón manns. Vistvanga má finna á hinum Norðurlöndunum, flestir þeirra eru í
Svíþjóð.
„Aðild að vistvangsverkefni UNESCO er viðurkenning fyrir Ísland í heild og eflir bæði
ímynd og aðdráttarafl Íslands og Snæfellsness. Með tilkomu vistvangs er opnað á
leiðir til að nýta reynslu og þekkingu annarra vistvanga víða um heim þar sem sjálfbærni,
nýsköpun og samfélagsuppbygging fara saman. Verkefnið er afurð
farsællar samvinnu allra aðila sem að því stóðu og eflir enn frekar tengsl
Snæfellsjökulsþjóðgarðs við nærsvæðin,“ segir Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-,
orku- og loftslagsráðherra.
Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, tekur í sama streng:
„Þessi viðurkenning gefur fræðslu, rannsóknum og nýsköpun á sviði auðlindanýtingar
og byggðaþróunar byr undir báða vængi. Við höfum séð dæmi um að MAB-tilnefning
hafi aukið verulega rannsóknir og eflt vísindastarf innan svæðisins, svo sem í
Nordhordland í Noregi, en slík vinna er undirstaða framfara.“
„Með staðfestingu UNESCO í dag er varpað ljósi á áralangt frumkvöðlastarf
Snæfellinga í umhverfis- og samfélagsmálum, sem og þau nýju tækifæri sem
samfélaginu bjóðast nú gegnum alþjóðlegt samstarf af þessari stærðargráðu.
Viðurkenningin, sem í tilnefningunni felst, markar eitt stærsta skrefið í þeirri vegferð
sem sveitarfélög, stofnanir, atvinnulíf og félagasamtök á Snæfellsnesi hafa staðið
saman að í a.m.k. þrjá áratugi – vegferð sem byggir á samvinnu um sjálfbærni, vernd
og nýtingu náttúruauðlinda í sátt við samfélagið. Það er heiður að fá tækifæri til að
vera fyrirmynd annarra svæða, bæði innanlands og á alþjóðavettvangi,” segir Björg
Ágústsdóttir, formaður stjórnar Svæðisgarðsins Snæfellsness.