
Gróðursetningardagur í Grundarfirði
Grunnskóli Grundarfjarðar í samvinnu við Skógræktarfélag Eyrarsveitar og Lionsklúbbinn í Grundarfirði efndi til gróðursetningardags á degi íslenskrar náttúru þann 16. september síðastliðinn. Grunnskólinn fékk afhentan Grænfánann í febrúar í fyrra og er gróðursetningardagur liður í þeirri vegferð.
Veg og vanda að gróðursetningardeginum höfðu þær Nanna Vilborg Harðardóttir, verkefnisstjóri skipulags- og umhverfismála, Karítas Eiðsdóttir og Hallfríður Guðný Ragnarsdóttir grunnskólakennarar sem skipa umhverfisnefnd Grunnskóla Grundarfjarðar. Þær nutu ráðgjafar Þórðar I Runólfssonar garðyrkjufræðings í Ræktunarstöðinni Lágafelli, og sáu þau m.a. um að afmarka fimm gróðursetningarsvæði. Hvert svæði var vandlega merkt með böndum og merkingum.
Mikil spenna var í krökkunum þegar þau sáu þrjú full fiskikör af skít, skóflur, hjólbörur og geispur. Hjálmar Gunnarsson, Jón Pétur Pétursson og Signý Gunnarsdóttir frá Skógræktarfélagi Eyrarsveitar kenndu helstu handtökin við gróðursetningu og voru krökkunum innan handar.
Hreinir fingur urður grænir og síðan brúnir á örskotsstundu þegar krakkarnir hófust handa. Geispan var gripin og með henni gerð hola í jörðina, tré var sett í holuna og í kjölfarið borinn á skítur. Verkaskipting var góð og voru flest tilbúin í öll verk þrátt fyrir að skíturinn hafi hrætt sum í fyrstu.
Að loknu góðu dagsverki bauð grunnskólinn upp á grillaðar pylsur, kærkominn endir á góðum degi.
Í heildina voru um 600 tré, sem Lionsklúbburinn í Grundarfirði gaf, gróðursett og er hlutverk þeirra að búa til skjól fyrir skólalóðina og skólabrekkuna.